Hin mörgu andlit stafrænnar vegferðar 

author

Telma Hrönn Númadóttir

Verkefnastjóri
27. nóvember 2023
2 mín lestur

Ég er mjög reglulega spurð hvað ég geri í lífinu. Mörgum þykir víst staða mín í atvinnulífinu og vegferðin þangað áhugaverð  Fjögurra barna móðir með bakgrunn í raunvísindum er ekkert með augljósa tengingu við hugbúnaðarþróun og hinn stafræna heim en hér erum við nú samt, eftir fjöldann allan af áskorunum á þægindarammann og nokkrum tilviljanatengdum u-beygjum.

Stafræn verkefni eru bæði fjölbreytt og skemmtileg, stafrænn þroski fyrirtækja og stofnanna er misjafn en flest gerum við okkur þó grein fyrir mikilvægi þeirra. Okkar hlutverk (okkar í Norda þeas) er að greina, hanna og þróa hugbúnaðarlausnir af ólíkum stærðargráðum og flækjustigi. Allt frá einföldum efnissíðum yfir í flókin kerfi sem krefjast gífurlegrar þekkingar á bæði þörfum og eiginleikum kerfisins sem og öllum gagnateningum og tæknilegum útfærsluleiðum. Ok þetta svarar líklega ekki spurningunni um mitt hlutverk samt.

Verkefnastjórnun

Ég geng stundum undir starfsheitinu óskipulagði verkefnastjórinn. Ekki það að ég sé svona hrikalega óskipulögð (sem ég er samt smá, þýðir víst lítið að reyna að neita staðreyndum) heldur kannski meira af því ég á það til að vera með marga bolta á lofti og með puttana í mörgu í einu. Stundum reyndar svo marga að ég veit varla hvort ég er að koma eða fara.

Í þessari viku tók ég bæði stöðufundi og demo með frábærum samstarfsaðilum. Tók fundi með áhugasömum og mögulegum framtíðar samstarfsaðilum sem eiga það sameiginlegt  að vilja bæta ásýnd sína og/eða notendaupplifun með uppfærðri hönnun eða bættum ferlum. Fór yfir hönnun með okkar hugmyndaríka hönnunarteymi.

Fór yfir niðurstöður notendaprófana og teiknaði upp ferla. Nú svo fór ég yfir verkefnastöðuna, passaði að álag á forritara væri hæfilegt og tók nokkur 1:1 spjöll. Og nei, ég gerði þetta ekki allt ein því samvinna og samstaða er alltaf lykillinn að árangri.

Nú er ætlun mín sannarlega ekki að kvarta undan fókusleysi eða verkefnaálagi því það er nákvæmlega þessi fjölbreytileiki og þetta skipulagða kaos sem heillar mig við þetta frábæra starf sem ég sinni. Tilgangur þessa stutta pistils er meira að hjálpa vinum, ættingjum, gömlum skólafélögum og æfingafélögum að skilja hvað ég geri í lífinu.

Því ég hreinlega elska þetta.

Kv, óskipulagði verkefnastjórinn